Efnisyfirlit
Markmið
Stefna þessi styður við stefnu stjórnvalda um stafræna þróun og Aðgerðaáætlun um gervigreind 2024-2026, með það að leiðarljósi að innleiðing gervigreindar sé í samræmi við siðferðisleg gildi, samfélagsábyrgð og sjálfbæra nýtingu tækni. Markmiðið er að
- styðja opinbera aðila í að nýta möguleika gervigreindar til að auka skilvirkni, bæta þjónustu og létta álagi af starfsmönnum, og
- gera almennar gervigreindarlausnir aðgengilegar sem flestum ríkisstofnunum með áherslu á skýra gagnavernd, öryggi og persónuvernd.
Grundvallarviðmið
Forgangslausnir – fljótleg innleiðing
Umbra leggur áherslu á innleiðingu almennra gervigreindarlausna sem hægt er að nýta strax án sérstakrar undirbúningsvinnu eða breytinga á kerfum. Þessar lausnir skulu ekki lesa eða vista gögn opinberra aðila nema búið sé að samþykkja slíka vinnslu með sérstöku og umfangsmiklu undirbúningsverkefni.
Sveigjanleiki og sjálfstæði
Umbra leitast við að tryggja sjálfstæði ríkisins gagnvart einstökum framleiðendum til að viðhalda sveigjanleika og nýta bestu mögulegu tækni hverju sinni, með hliðsjón af áherslum stjórnvalda um sjálfbæra nýsköpun og aukna samkeppnishæfni. Þetta tryggir að val lausna frá einstökum framleiðendum byggist á faglegum og gagnsæjum grunni.
Samþykktar lausnir
Umbra leggur áherslu á innleiðingu almennra gervigreindarlausna sem nýtast breiðum hópi opinberra aðila. Sérhæfðar vörur á sviði gervigreindar geta komið til skoðunar en skulu keyptar í gegnum lögmæt innkaupaferli og uppfylla verklags- og öryggiskröfur Umbru.
Samþykki fyrir gagnavinnslu
Gervigreindarlausnir sem krefjast lestrar eða vinnslu gagna úr ríkiskerfum verða ekki teknar í notkun fyrr en búið er að framkvæma ítarlegt undirbúningsverkefni sem felur í sér gagnavörslu, flokkun, verklagsreglur og samþykki stofnana fyrir slíkri vinnslu.
Framkvæmd
Í samræmi við áherslur stjórnvalda um aukna almenna þekkingu og færni í gervigreind og gagnalæsi, stofnar Umbra sérstakan hóp sem vinnur að innleiðingu stefnunnar, útfærslu verklags og fylgir eftir framkvæmd.
Hópurinn tryggir að öll notkun gervigreindar samræmist stefnu þessari og viðeigandi lögum og reglum.
Starfsmenn ríkisins fá þjálfun og fræðslu um notkun þeirra lausna sem samþykktar eru og uppfylla öll skilyrði Umbru.
Öryggi og gagnavernd
Við alla notkun gervigreindar skal tryggt að farið sé að gildandi reglum um persónuvernd, öryggi gagna og gagnsæi. Engin gögn má nýta til þjálfunar eða vinnslu með gervigreind nema fyrir liggi skýrt samþykki viðkomandi stofnunar og farið hafi verið ítarlega yfir öryggisþætti slíkrar vinnslu. Umbra fylgir einnig stefnu stjórnvalda varðandi stafrænt öryggi og gagnavernd.
Þessi stefna tryggir að gervigreind nýtist á ábyrgan og öruggan hátt, um leið og skilvirkni og þjónusta hjá opinberum aðilum er bætt með nýjustu tækni.